ISCH Sólskinsgeisla Kvöld Rökkurdís BEST IN SHOW!

Terrier sýningin um síðustu helgi gekk vonum framar. Ég var ekki með miklar væntingar af því að ég er búin að vera veik og Rökkurdís því ekki búin að fá mikla hreyfingu undan farið. Hún var hinsvegar í feikna stuði og sýndi sig vel þegar hún kom inn í hringinn. Það skemmdi heldur ekki fyrir að á sama tíma var verið að klappa fyrir e-h í hinum hringnum en Rökkurdís tók hrósið til sín. Dómaranum leist bara vel á hana þegar hún skoðaði hana á borði og gaf henni Exellent. Þá skoðaði hún hina tíkina hana Mystic og gaf henni líka Exellent. Rökkurdís stóð þó uppi sem sigurvegari og fékk sitt þriðja meistarastig!!! Hún varð svo besti hundur tegundar og keppti því í Best in show.  Ég hugsaði áður en ég fór inn í hringinn að það væri nú gaman að ná þriðja eða fjórða sæti, ég varð því pínu lítið vonsvikin þegar þau höfðu gengið út. Það kom mér því rosalega á óvart þegar dómarinn Siv Jernhake rétti mér rauðu róhettuna. Það var samt alveg ótrúlega skemmtilegt, ég átti einhvernvegin ekki von á því að Rökkurdís kæmi til með að verða besti hundur sýningar!  Fyrir utan þessa frétt er svo sem ekki mikið að frétta. Ég er bara á fullu í skólanum, sem er ágætt, alltaf nóg að gera að minnsta kosti.  Í sambandi við veðrið er ég ekkert smá sátt, ég elska sól, snjó og frost allt í einum pakka, þegar það er ekki rok. Í dag dreif ég krakkana í Klapparholti út í göngutúr upp á Rauðavatn þar sem þau fengu að leika sér á ísnum. Ég tók Rökkurdís með enda vekur hún mikla kátínu hjá krökkunum, ekki síst þegar þau fá að kasta bolta fyrir hana. Ég vildi að ég hefði verið með myndavél með mér því þetta var svona ekta myndaveður. Ég reyni að muna það næst. Á morgun er ég að fara á námskeið í Sólheimum, það verður eflaust gaman en ég væri alveg til í að geta átt daginn í útivist og skroppið jafnvel uppí fjöll á skíði. Annars er ég líka komin með æði fyrir gönguskíðum en vonandi verður bara gott veður á sunnudaginn. Næsta vika veður svo auðvitað æðisleg, einn besti dagur ársins, Bolludagur er á mánudaginn og ég get ekki beðið eftir að gæða mér á gómsætum rjómafylltum bollunum. Ég fæ bara vatn í munninn við tilhugsunina. Svo kemur auðvitað sprengidagur sem er kannski ekki eins vinsæll hjá mér, en Öskudagur er hinsvegar líka alveg ótrúlega skemmtilegur, þá fara allir í búninga og ganga um syngjandi og sníkjandi. Mér finnst samt leiðinlegt hvað hefðin með öskupokana er alveg horfin. Ég man einu sinni þegar ég var lítil þá var ég búin að vanda mig mikið í handavinnu í skólanum að sauma öskudagspoka og gat varla beðið eftir því að fara af stað og hengja á mann og annan, en þegar á hólminn var komið tímdi ég ekki að hengja pokana á neinn því mér fannst þeir svo flottir... En nóg í bili ætla að fara að læra. Kveðja,ISCH Sólskinsgeisla Kvöld RökkurdísJónína Sif

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband